Medicus var stofnað árið 2019 í kringum þjónustu nokkurra starfandi heimilislækna við fyrirtæki.

Í dag sinnum við fjölbreyttum fyrirtækjum í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins.

Okkar markmið er að veita hefðbundna trúnaðarlæknaþjónustu en jafnframt vinna náið með öðrum fagaðilum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, iðjuþjálfa, íþróttafræðingum og sérgreinalækum.

Okkar nálgun er einnig önnur en margra annarra. Hefðbundnar vinnustaðaskoðanir hafa hingað til aðallega snúist um ýmislegt sem hægt er að mæla, blóðþrýsting, þyngd, mittismál, kólesteról og blóðsykur. Hraust ungt fólk hefur jafnvel verið sett í álagspróf mtt.hjartasjúkdóma eða álíka sem lítil vísindi eru á bak við að nota hjá einkennalausum einstaklingum.

Flestir einstaklingar þekkja sína fjölskyldusögu og eru því meðvitaðir um áhættuþætti hjarta-og æðasjúkdóma, sykursýki og álíka. Fæstum dylst til að mynda yfirþyngd sín eða hreyfingarleysi. 

Að sjálfsögðu er mikilvægt að horfa á heilsufarsskoðanir sem tækifæri til að grípa fólk og vekja til umhugsunar um áhættuþætti og lífsstíl en við megum ekki hunsa það sem við í dag vitum að hefur jafn mikil áhrif á áhættuþætti, áhrif á lífsstílinn og gríðarleg áhrif á veikindafjarvistir starfsmanna. Okkar athygli mun því ekki síður beinast að þessum þáttum og þar með stuðla að bættri heilsu og hag starfsmanns og fyrirtækis.

Við munum því í hverri komu fylgjast með og mæla streitu, andlega líðan og ræða svefn, alveg til jafns og kólesterólmælingar og blóðþrýstingsmælingar og veita ráðgjöf og koma fólki hratt í farveg varðandi atriði sem þurfa meðferðar við.

  • Streita

Hófleg streita skerpir athygli að aðkallandi verkefnum og hjálpar okkur að bæta frammistöðu. T.d. sé maður að læra undir próf getur streita virkað jákvæð, aukið einbeitingu og kraft. Of mikil streita getur hinsvegar verið lamandi og orðið til þess að okkur tekst ekki að einbeita okkur. Það er mikilvægt að útiloka ekki alla streitu heldur læra að takast á við hana og forðast aðstæður sem skapa of mikið álag.  Við þurfum að kunna að koma auga á hættumerki því þegar öllu er á botninn hvolft getur streita reynst vera dauðans alvara. Streita virðist þannig ýta undir að því virðist flesta sjúkdóma, almenn veikindi, sjúkdóma í meltingarkerfi, slys við vinnu og utan, krabbamein, hjarta-og æðasjúkdóma.

 

  • Andleg vanlíðan

Algengi geðraskana meðal fullorðinna er talin vera í kringum 27%. Þetta þýðir að næstum þriðjungur fullorðinna upplifir á einhverjum tímapunkti í lífi sínu andleg vandamál. WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að þunglyndi sé meginorsök skertrar starfsgetu í heiminum og rannsóknir innan ESB hafa sýnt að allt að 50-60% veikindafjarvista megi rekja til streitu eða andlegrar vanlíðunar.   Algengasta orsök örorku á Íslandi eru þannig geðraskanir en ekki stoðkerfisvandamál eða aðrir sjúkdómar. Það er því ljóst að hag samfélagsins er vel borgið ef vinnustaðir reyna með forvörnum að draga úr andlegum veikindum með inngripum og auðvelda fólk endurkomu til vinnu með stuðningi og sveigjanleika.

Í tilfelli andlegra veikinda er mun mikilvægara en t.d.vegna annarra veikinda að viðkomandi eigi möguleika á að sinna starfi sínu í samræmi við þrek og ástand og það getur verið forvörn gegn því að viðkomandi fari í langtímaveikindi. Sé um kvíða að ræða er farsælast að finna verkefni við hæfi og gefa sveigjanleika. Ekki síður er áhugavert og mikilvægt að vita að það eru tengsl milli almennra veikinda og slysa og nýs andlegs vanda í kjölfarið sem og að andlegur vandi ýti undir almenn veikindi og slys.

 

  • Svefnvandi

Svefnleysi veldur líka sjúkdómum, veikir ónæmiskerfi, eykur líkur á sykursýki, hjarta-og æðasjúkdómum og verkjum. Ef við glímum við langvarandi svefnleysi eru meiri líkur að þróa með sér geðrænan vanda en streita og álag er líka oft það sem ýtir undir svefnleysi. Svefnleysi dregur úr framleiðni til vinnu og fjölgar veikindadögum. Viðamikil rannsókn á Norðurlöndum sýndi fram á að þeir sem þjást af langvarandi svefnvanda taka tvöfalt fleiri veikindadaga á ári. Svefnleysi hefur áhrif á athygli og einbeitingu og hægir á viðbragðshraða líkamans. Talið er að rekja megi fjórðung vinnuslysa eða mistaka á vinnustöðum í Bandaríkjunum til að mynda beint til svefnleysis.

Samanlagt gætu veikindafjarvistir, kostnaður vegna slysa og annað sem rekja má eingöngu til svefnleysis kostað íslenskt samfélagi samanlagt tugi milljarða á ári í veikindalaun, bætur og fleira og því til mikils að vinna að reyna að stemma stigum við vandanum.